Evrópusambandið styrkir fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni undir forystu Össurar hf


            
Rannsóknarverkefni, sem íslenska hátæknifyrirtækið Össur hf. hefur frumkvæði að og stýrir, hefur hlotið styrk úr 5. rammaáætlun Evrópusambandsins um stuðning við rannsóknir og þróun. Þróuð verður tímamótanýjung á sviði heilsugæslu, þar sem sérfræðingar á sviði læknavísinda, stoðtækni, mælitækni og þráðlausra samskipta vinna saman. Rannsóknarverkefnið hefst 1. janúar 2001 og er áætlað að það standi í tvö og hálft ár. Umfang verkefnisins er um 216 milljónir ísl. króna og nemur styrkur frá ESB um 130 milljónir ísl. króna<br>
<p><br>
Verkefnið miðar að því að þróa svokallaða skyn-hulsu, sem sett er á stúf eftir aflimun og gefur mikilvægar upplýsingar um ástand og heilsufar viðkomandi einstaklings. Upplýsingum verður safnað með nemaneti í hulsunni og þær síðan sendar þráðlaust til sjúkrahúss eða endurhæfingarstöðvar, þar sem unnið er úr þeim og ástand sjúklingsins metið. Þannig er unnt að fækka heimsóknum sjúklingsins til læknis og stoðtækjafræðings, jafnframt því sem kostur gefst á betri upplýsingum um ástand hans en fást með aðferðum sem þekktar eru í dag.<br>
<p><br>
Samstarfsaðilar Össurar hf. í þessu verkefni koma frá Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Svíþjóð og Ísrael. Þeir eru alls níu talsins: þrjú sjúkrahús, þrír endurhæfingaraðilar og tveir nemaframleiðendur, ásamt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þráðlausum samskiptum. Rannsóknarráð Íslands (RANNÍS) veitti Össuri hf. stuðning við að koma verkefninu á laggirnar. <br>
<p><br>
Össur hf. mun hafa yfirumsjón með verkefninu og verkefnisstjóri verður Freygarður Þorsteinsson, efnaverkfræðingur hjá Össuri hf.

Subscribe