Össur - 6 mánaða uppgjör

Sala Össurar hf. fyrstu sex mánuði ársins 2003 nam rúmlega 44 milljónum Bandaríkjadala (3,4 milljarðar íslenskra króna*). Söluaukning milli ára jafngildir 12% innri vexti. 
Rekstrarhagnaður var 4,5 milljónir dala (346 milljónir íslenskra króna*) og stóð í stað miðað við fyrra ár. 

Hagnaður fyrstu sex mánuði ársins var 3,3 milljónir dala (254 milljónir íslenskra króna*) og dróst saman um 9% frá fyrra ári. 

Hagnaður á hlut (EPS) var 3,02 US cent síðastliðna 12 mánuði og jókst úr 2,74 centum á hlut m.v. sambærilegt tímabil í fyrra.


Árshlutareikningur annars ársfjórðungs 2003 fyrir félagssamstæðu Össurar hf. var samþykktur á stjórnarfundi 23. júlí. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins og áritaður án athugasemda.

Samstæða Össurar hf. samanstendur í meginatriðum af Össuri hf. á Íslandi, samstæðu Össur Holdings Inc. í USA, samstæðu Össur Holding AB í Svíþjóð og Össur Europe B.V. í Hollandi.
 
*Samkvæmt reikningsskilareglum ber við umreikning rekstrarliða milli gjaldmiðla að miða við meðalgengi rekstrartímabils. Við umreikning úr Bandaríkjadölum yfir í íslenskar krónur er notað meðalgengi rekstrartímabilsins sem er 74,6 ISK/USD fyrir annan ársfjórðung og 76,6 fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Við umreikning efnahagsliða er notað gengi í lok júní sem var 76,6 ISK/USD.


Helstu rekstrarniðurstöður janúar til júní 2003

Rekstrarreikningur janúar til júní 2003 (þús.USD) Jan.-jún. 2003 % af     sölu Jan.-jún. 2002 % af     sölu Breyting 
                                                                        
Sala                             44.418        100%     39.816        100%    12%
Kostnaðarverð seldra vara                  -18.148        -41%     -16.090        -40%    13%
Framlegð                           26.270         59%     23.726         60%    11%
                                                                        
Aðrar rekstrartekjur                      104         0%       329         1%   -68%
Sölu- og markaðskostnaður                  -9.885        -22%     -9.089        -23%    9%
Þróunarkostnaður                       -4.852        -11%     -3.575         -9%    36%
Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður              -7.118        -16%     -6.859        -17%    4%
                                                                        
Rekstrarhagnaður                       4.519         10%      4.532         11%    0%
                                                                        
Fjármunatekjur/(fjármagnsgjöld)                -373         -1%       15         0%  -2587%
Tekjur frá hlutdeildarfélögum                   0         0%       38         0%   -100%
                                                                        
Hagnaður fyrir skatta                     4.146         9%      4.585         12%   -10%
Tekjuskattur                          -834         -2%      -965         -2%   -14%
                                                                        
Hagnaður tímabilsins                     3.312         7%      3.620         9%    -9%
                                                                        
EBITDA                            5.848         13%      5.732         14%    2%


Efnahagsreikningur í lok júní

Efnahagsreikningur (þús. USD) 30.6.2003 31.12.2002 Breyting 
                                   
Fastafjármunir           33.219   32.836    1%
Veltufjármunir           52.606   38.589    36%
Eignir samtals           85.825   71.425    20%
                                   
Eigið fé              44.171   39.861    11%
Langtímaskuldir           26.828   14.627    83%
Skammtímaskuldir          14.826   16.937   -12%
Eigið fé og skuldir samtals     85.825   71.425    20%


Sjóðstreymi janúar til júní 2003

Sjóðstreymi (þús. USD)        Jan.-jún. 2003 Jan.-jún. 2002 
                                     
Veltufé frá rekstri               5.354      5.547
                                     
Handbært fé frá rekstri             4.916       997
Fjárfestingahreyfingar             -2.044     -2.134
Fjármögnunarhreyfingar             10.200      1.364
Hækkun / (lækkun) handbærs fjár        13.072       227


Lykiltölur janúar til júní 2003

Lykiltölur                 Jan.-jún. 2003 Jan.-jún. 2002 
                                        
Hagnaður á hlut (US. Cent)               3,02      2,74
V/H hlutfall                      22,6      23,7
Arðsemi eigin fjár                    25%       29%
Veltufjárhlutfall                     3,5       2,0
Eiginfjárhlutfall                     51%       50%
Markaðsvirði hlutafjár (milljónir USD)          221       211


Helstu rekstrarniðurstöður annars fjórðungs 2003 

Rekstrarreikningur (þús.USD)    2.ársfj. 2003 % af     sölu 2.ársfj. 2002 % af     sölu Breyting 
                                                               
Sala                     22.726        100%     21.223        100%    7%
Kostnaðarverð seldra vara          -9.019        -40%     -8.595        -40%    5%
Framlegð                   13.707         60%     12.628         60%    9%
                                                               
Aðrar rekstrartekjur               22         0%      107         1%   -79%
Sölu- og markaðskostnaður          -5.013        -22%     -4.891        -23%    2%
Þróunarkostnaður               -2.595        -11%     -1.557         -7%    67%
Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður      -3.572        -16%     -3.298        -16%    8%
                                                               
Rekstrarhagnaður               2.549         11%     2.989         14%   -15%
                                                               
Fjármunatekjur/(fjármagnsgjöld)        -247         -1%      338         2%   -173%
Tekjur frá hlutdeildarfélögum           0         0%      -18         0%   -100%
                                                               
Hagnaður fyrir skatta             2.302         10%     3.309         16%   -30%
Tekjuskattur                  -394         -2%      -720         -3%   -45%
                                                              
Hagnaður tímabilsins             1.908         8%     2.589         12%   -26%
                                                               
EBITDA                    3.205         14%     3.604         17%   -11%


Rekstur á öðrum ársfjórðungi

Sala annars ársfjórðungs nam 22,7 milljónum Bandaríkjadala, sem er hæsta upphæð á einum ársfjórðungi frá upphafi. Sala fyrstu sex mánuðina 2003 jókst um 12% frá fyrra ári. Á árinu 2003 hafa ekki verið keypt fyrirtæki sem hafa áhrif á sölutekjur tímabilsins og því er eingöngu um að ræða aukningu vegna innri vaxtar. 

Það einkennir sölu annars fjórðungs að vöxtur er minni en verið hefur, eða 7% milli ára. Norður- Ameríku markaður heldur áfram að vera þungur og dróst sala þar saman um 3% miðað við sama fjórðung í fyrra en jókst um 1% á fyrsta ársfjórðungi. Almennt efnahagsástand á þessu markaðssvæði hefur verið og er erfitt eins og speglast glöggt í vaxta- og gengisþróun Bandaríkjadals undanfarin misseri. Góður vöxtur hefur verið á Evrópumarkaði, bæði í Vestur-Evrópu og á Norðurlöndunum. Samdráttur hefur verið það sem af er ári á sölu málmhluta til ígræðslu í gegnum Mauch Inc. Sú framleiðsla er fyrst og fremst seld til eins stórs kaupanda, sem hefur tímabundið dregið úr innkaupum og eru horfur á samdrætti þessarar framleiðslu út árið. Við almennan samanburð á sölu annars ársfjórðungs milli ára þarf að gæta að því að sala 2002 var mjög góð og jókst um 26% frá 2001. Nánar skiptist ytri sala samstæðunnar þannig eftir markaðssvæðum:

Þús. USD          2.ársfj. 
2003 %   2.ársfj. %   Breyting % 
2002   
                                            
Össur North America, Inc.      10.856  48%  11.181  53%     -3%
Össur Europe, B.V.          6.026  26%   4.237  20%     42%
Össur Nordic, A.B.          3.020  13%   2.730  13%     11%
Aðrir markaðir            1.999  9%   1.931  9%     4%
Mauch, Inc.               825  4%   1.144  5%    -28%
                                          
Samtals               22.726 100%  21.223 100%     7%


Framlegð fyrstu sex mánuði ársins 2003 var 59% eða nánast sú sama og árið 2002, en þá var hún 60%. Framlegð á öðrum fjórðungi var 60% sem er sama hlutfall og á fyrra ári. 

Sölu- og markaðskostnaður var 22% af sölu fyrstu sex mánuði ársins og lækkar aðeins sem hlutfall af sölu frá sama tímabili á fyrra ári, en þá var þessi kostnaður 23%. 
 
Rannsóknar- og þróunarkostnaður nam 11% af sölu fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 9% fyrstu sex mánuðina 2002. Á öðrum ársfjórðungi var kostnaðurinn 11% og hækkaði úr 7% frá fyrra ári. Rekstrarmarkmið félagsins gera ráð fyrir að rannsóknar- og þróunarkostnaður sé 6-8% af árlegum sölutekjum. Ástæða þess að fjárfesting í rannsóknar- og þróunarstarfi hefur verið aukin tímabundið er meðal annars sú að unnið er að fullum krafti að því að koma út fyrstu vörulínu fyrirtækisins á sviði stuðningstækja og er gert ráð fyrir að línan fari á markað fyrir árslok. Eins og áður hefur komið fram leitar Össur markvisst að fyrirtækjum til kaups, á þessu starfssviði, en ekki hefur enn orðið af kaupum. Aukinn kraftur hefur því verið settur í innra þróunarstarf á þessu sviði. Langtímastefna félagsins um að rannsóknar- og þróunarkostnaður sé að jafnaði ekki hærri en 8% er óbreytt.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður hefur farið lækkandi og er 16% af sölu fyrstu sex mánuði ársins en var 17% á sama tímabili í fyrra. Hlutfallið á öðrum ársfjórðungi er í samræmi við það sem var árið 2002 eða um 16%. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur talsverðum fjármunum verið varið til málssókna vegna brota á einkaleyfarétti Össurar.

Nokkur viðsnúningur er í fjármuna- og fjármagnsliðum milli ára. Það sem aðallega skýrir þessa breytingu er að á öðrum ársfjórðingi í fyrra var verulegur einskiptis gengishagnaður af skammtímaláni hjá einu af dótturfélögum Össurar.

Það sem stendur upp úr varðandi rekstur fyrstu sex mánaða ársins að mati stjórnenda er: 

Sala á fyrsta ársfjórðungi var í samræmi við væntingar en sala á öðrum fjórðungi var þyngri en vænst var. 

Auka hefur þurft þróunarstarf tímabundið þar sem ekki hefur fundist stuðningstækjafyrirtæki til að kaupa sem fallið hefur að viðskiptaþróunarstefnu félagsins. 

Aðhalds hefur þurft að gæta í rekstrinum þar sem kaupmáttur Bandaríkjadals gagnvart krónu hefur rýrnað um meira en 21% milli ára. 


Endurfjármögnun og nýtt lánsfé

Í byrjun júní var gengið frá endurfjármögnun á langtímaskuldum fyrirtækisins og samið um nýjar lántökur. Samið var við Íslandsbanka hf. í kjölfar útboðs og er heildarsamningurinn upp á 25 milljónir Bandaríkjadala. Þar af runnu tæplega 10 milljónir til uppgreiðslu eldri lána, 10 milljónir er nýtt fjárfestingalán en auk þess var samið um yfirdráttarlínu að upphæð 5 milljónir dala. Í öllum tilvikum er um að ræða 5 ára kúlúlán með föstum vöxtum. Lánsskilmálar og vaxtakjör eru fyrirtækinu mjög hagfeld. Að meðtaldri lánalínu hefur fyrirtækið nú til ráðstöfunar tæplega 30 milljónir dala í handbæru fé. 


Samstarfssamningar og þróunarfyrirtæki 

Eins og áður hefur komið fram í sérstakri fréttatilkynningu gerði Össur, á öðrum ársfjórðungi, þróunarsamstarfssamning við Victhom Human Bionics Inc. 

Rétt eftir lok fjórðungsins var síðan gengið frá kaupum á Linea Orthopedics í Svíþjóð sem er fyrirtæki á þróunarstigi er sérhæfir sig í útlitslausnum fyrir stoðtæki, sbr. fyrri fréttatilkynningu.


Þjónustukönnun

Í þjónustukönnun sem Össur lét gera meðal viðskiptavina á yfir 600 stoðtækjaverkstæðum í Bandaríkjunum og Evrópu, kemur fram að 98% svarenda myndu mæla með vörum fyrirtækisins og 91% eru ánægð með þjónustu fyrirtækisins. Niðurstöður könnunarinnar í heild sýna að Össur hefur mjög sterka stöðu meðal viðskiptavina sinna. Markmið könnunarinnar var að meta ánægju viðskiptavina með vörur og þjónustu fyrirtækisins, ásamt samanburði við vörur og þjónustu helstu keppinauta. Könnunin var framkvæmd í febrúar og mars sl. og var svarhlutfall 68%. 


Verðlaun fyrir fjárfestatengsl

Össur hf. hlaut verðlaun, annað árið í röð, fyrir góð samskipti og upplýsingagjöf til fjárfesta á árlegri verðlaunaafhendingu Investor Relations Magazine, sem var haldin í Kaupmannahöfn í maí. 


Ö víkur fyrir O

Ákveðið hefur verið að fella burtu Ö-ið í öllu rituðu máli sem fyrirtækið sendir frá sér erlendis. Nafn fyrirtækisins verður því framvegis skrifað “Ossur” erlendis en Össur á Íslandi. Kennimark (logo) Össurar helst óbreytt.


Horfur í rekstri á þriðja ársfjórðungi

Útlit er fyrir að vöxtur í sölu verði í takt við það sem verið hefur á fyrri hluta ársins þ.e. hægari en milli 2001 og 2002. Að óbreyttu lítur út fyrir að rekstrarhagnaður og EBITDA hlutfall á þriðja ársfjórðungi í ár verði lakara, sem hlutfall af sölu, en á árinu 2002. 


Fundur með stjórnendum

Í fyrramálið gefst fjárfestum og öðrum, sem áhuga hafa á rekstri félagsins, kostur á að koma á opinn fund með stjórnendum félagsins. Á fundinum mun Jón Sigurðsson, forstjóri, fara yfir niðurstöður ársfjórðungsins og ræða við fjárfesta. Á fundinn mætir einnig Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri. 

Fundurinn verður á morgun, föstudaginn 25. júlí, og hefst kl. 8:30 á skrifstofu Össurar hf. á Grjóthálsi 5 í Reykjavík. Fundurinn fer fram á ensku og unnt verður að fylgjast með honum á Netinu í gegnum vef Össurar sem er www.ossur.com.