Össur - Ársuppgjör 2012

Salan á árinu í takt við áætlun  -  metsala á bionic vörum á fjórða ársfjórðungi
Sala - Söluvöxtur ársins var 3%, mælt í staðbundinni mynt, og í takt við áætlun
um 2-3% vöxt. Heildarsala nam 399 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 398
milljónir dala 2011. Góður vöxtur var á öllum helstu vörumörkuðum og landsvæðum
í EMEA, en eftirlit endurgreiðsluaðila heldur áfram að hafa áhrif í
Bandaríkjunum. Söluvöxtur í stoðtækjum var 4% og söluvöxtur í spelkum og
stuðningsvörum var 3%, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt. Metsala var á
bionic vörulínunni á fjórða ársfjórðungi eða sem nam 17% af heildarsölu á
stoðtækjum.

Arðsemi - Framlegð var stöðug. Framleiðslan í Mexíkó hafði jákvæð áhrif sem og
önnur skilvirkniverkefni innan framleiðsludeildar, en slök sala á stoðtækjum í
Bandaríkjunum hafði neikvæð áhrif. Framlegðin nam 248 milljónum Bandaríkjadala
eða 62% af sölu, sem er sama hlutfall og árið 2011. EBITDA nam 70 milljónum
Bandaríkjadala eða 18% af sölu og var í takt við áætlun um 18-19%.

Hagnaður jókst um 9% á árinu og nam 38 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við
35 milljónir dala árið 2011. Aukinn hagnaður er að mestu tilkominn vegna minni
fjármagnskostnaðar.

Sjóðstreymi er áfram sterkt og handbært fé frá rekstri var 18% af sölu ársins,
samanborið við 17% árið 2011.

Á undanförnum árum hefur hagnaður verið góður og sjóðstreymi sterkt. Félagið er
nú í aðstöðu til þess að greiða hluthöfum arð. Stjórn félagsins mun því leggja
fram tillögu um greiðslu arðs á næsta aðalfundi félagsins.

Jón Sigurðsson, forstjóri:
"Enn eitt árið gengur mjög vel í EMEA á meðan markaðsaðstæður í Bandaríkjunum
hafa verið erfiðar. Sala á stoðtækjum í EMEA hefur verið mjög góð allt árið og
metsala á bionic vörum á fjórða ársfjórðungi. Þrátt fyrir miklar sviptingar í
endurgreiðslukerfinu í Bandaríkjunum finnum við fyrir áhuga á okkar
hátæknivörum. POWER KNEE, ein af okkar háþróuðustu vörum, var samþykkt inn í
endurgreiðslukerfið frá og með 1. janúar 2013. Við erum ánægð að sjá
áframhaldandi eftirspurn á hátæknivörum sem sýna fram á gæði og hagkvæmni."

Ólympíuleikar - Á árinu vann Oscar Pistorius það afrek að verða fyrsti aflimaði
einstaklingurinn  til  þess  að keppa á Ólympíuleikum ófatlaðra. Árangur
íþróttamanna á Ólympíuleikum fatlaðra vakti einnig verðskuldaða athygli og hefur
árangur þeirra nú þegar breytt viðhorfi almennings gagnvart fötluðum.

Nýjar vörur - Á árinu voru 29 nýjar vörur kynntar og var gott jafnvægi á milli
stoðtækja og spelkna og stuðningsvara. Í spelkunum hefur verið lögð áhersla á að
styrkja vörulínur sem hafa náð góðum árangri eins og Unloader One, sem er
meðferð við slitgigt, bak- og hálsspelkur og Rebound Walker.  Í stoðtækjunum ber
hæst SYMBINIC LEG, sem er fyrsti heildstæði rafræni gervifótur sinnar tegundar.
SYMBIONIC LEG hefur gengið vel og fengið jákvæð viðbrögð frá notendum. Á árinu
var einnig lögð aukin áhersla á stoðtæki fyrir eldri notendur.

Mexíkó - Árið 2012 var fyrsta heila rekstrarárið í Mexíkó, en framleiðsla þar
hófst í september 2011. Flutningur á framleiðslu vara frá öðrum starfsstöðvum
Össurar til Mexíkó hefur gengið vel og án mikilla vandkvæða. Verksmiðjan er vel
tækjum búin og mun halda áfram að styrkja framleiðslugetu félagsins.

Áætlun 2013 - Stjórnendur gera ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 2-4%, mælt í
staðbundinni mynt, og að EBITDA verði á bilinu 18-19% sem hlutfall af veltu.


Símafundur á morgun, fimmtudaginn 7. febrúar kl. 11:00

Á morgun, fimmtudaginn 7. febrúar, verður haldinn símafundur þar sem farið
verður yfir niðurstöður fjórða ársfjórðungs og ársins í heild. Fundurinn hefst
kl. 11:00 GMT / 12:00 CET.  Á fundinum munu þeir Jón Sigurðsson, forstjóri, og
Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri, kynna afkomu félagsins og svara spurningum.
Fundurinn fer fram á ensku og verður hægt að fylgjast með honum á netinu á
slóðinni www.ossur.com/investorsSímanúmer til að taka þátt í fundinum eru:
Evrópa: 44 (0) 1452 555131 or + 46(0)8 506 307 79
Bandaríkin: + 1 866 682 8490
Ísland: 800 9300

Nánari upplýsingar:

Jón Sigurðsson, forstjóri        sími: 515-1300

Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri    sími: 515-1300

Sigurborg Arnarsdóttir, fjárfestatengill sími: 664-1044


Athugið að þetta yfirlit nær aðeins yfir helstu þætti uppgjörsins. Tilkynningu í
fullri lengd á ensku er að finna á www.ossur.com/investors