Össur hf. undirritar samning um kaup á Generation II Group

Össur hf (HL/OSSR) hefur undirritað samning um kaup á fyrirtækjasamstæðunni Generation II Group fyrir 31 milljón Bandaríkjadala. Generation II er forystufyrirtæki á sviði þróunar og framleiðslu á hnjáspelkum í Norður Ameríku. 
Generation II sérhæfir sig í spelkum til nota vegna liðbandaáverka, slitgigtar og eftir skurðaðgerðir. Hjá Generation II starfa 168 manns, en félagið er með starfsemi í Vancouver í Kanada, Seattle í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu.

Össur er  í forystu um framleiðslu og sölu stoðtækja, en framleiðir einnig og selur stuðningsvörur á Norðurlöndunum. Kaup Össurar á Generation II munu auka tækifæri félagsins á markaði fyrir stuðningstæki til muna, en félagið hóf nýverið að markaðssetja ökklaspelkur, sem eru fyrsta vörulína Össurar á þessum markaði. 

“Þessi fjárfesting er mikilvægur áfangi í sókn Össurar inn á stuðningstækja?markaðinn. Áhersla Generation II á rannsóknar- og þróunarstarf, hágæða vörur fyrirtækisins og starfsandi, falla mjög vel að þeirri hugmyndarfræði sem ræður ríkjum hjá Össuri”, segir forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson.

“Þetta er mjög jákvæð þróun fyrir viðskiptavini okkar, sem munu njóta góðs af fjölbreyttara vöruúrvali og auknu svigrúmi til að halda áfram metnaðarfullu rannsóknar- og þróunarstarfi okkar,” segir Dean Taylor, stofnandi og framkvæmdastjóri Generation II Group. 

Alan Young, forstjóri Generation II í Bandaríkjunum, segir að samruninn sé “spennandi tækifæri fyrir starfsfólkið til að vinna með fremsta fyrirtæki á sínu sviði”. Hann bætir því við að bakrunnur fyrirtækjanna sé keimlíkur þar sem þau leggja bæði áherslu á hátæknilegar gæðalausnir fyrir viðskiptavini sína.

Á tólf mánaða tímabili sem lýkur 30. september 2003, er gert ráð fyrir að tekjur Generation II Group verði rúmar 20 milljónir Bandaríkjadala og framlegð af vörulínum ívið hærri en hjá Össuri hf. 
 
Á næstu þremur vikum verður unnið að lokafrágangi vegna kaupanna. Í framhaldi af því verður boðað til kynningarfundar. 

Nánari upplýsingar um Generation II er að finna á heimasíðum félaganna: “www.g2orthotics.com” og “www.gen2.com”

Nánari upplýsingar um Össur eru á heimasíðu félagsins: www.ossur.com


Subscribe