Össur kaupir Gibaud Group í Frakklandi

Ossur hf. (ICEX: OSSR), hefur keypt franska fyrirtækið Gibaud Group fyrir um 132 milljónir Bandaríkjadala (101 milljón evrur). Gibaud Group er forystufyrirtæki í Frakklandi á sviði þróunar og framleiðslu á stuðningstækjum með sérstakri áherslu á spelkur og vörur til notkunar við blóðrásarmeðferðir (phlebology).  Össur tekur við rekstri Gibaud Group frá og með deginum í dag. 
Kaupin á Gibaud Group eru önnur stærstu fyrirtækjakaup Össurar og falla vel að þeirri stefnu félagsins að víkka út starfsemina á sviði stuðningstækja.
 
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar sagði kaupin mikilvægan áfanga í sókn Össurar inn á stuðningstækjamarkaðinn: "Kaupin eru mikilvægur áfangi fyrir okkur og í samræmi við stefnu félagsins um að sameina þennan markað. Með kaupunum fær Össur einnig aðgang að nýjum og mikilvægum hluta evrópska markaðarins, sem er fyrir vörur til notkunar við blóðrásarmeðferð, sem fellur vel að sölukerfum stuðningstækjafyrirtækja í Evrópu."

Helstu vörulínur Gibaud Group eru spelkur og stuðningsvörur og vörur til notkunar við blóðrásarmeðferð. Stuðningstækjamarkaðurinn í Frakklandi er metinn á um 130 milljónir Bandaríkjadala og er Gibaud Group næst stærsta fyrirtækið með yfir 20% markaðshlutdeild. Franski markaðurinn fyrir vörur til notkunar við blóðrásarmeðferð er einnig metinn á yfir 130 milljónir Bandaríkjadala. Gibaud Group er með yfir 10% markaðshlutdeild á þessum markaði og er þriðja stærsta fyrirtækið. Með vörum Gibaud Group, sterkri markaðsstöðu, kunnáttu fyrirtækisins og reynslu mun Össur styrkja stöðu sína í Evrópu og þá sérstaklega í suður-Evrópu.  

Ávinningur með kaupunum á Gibaud Group:

"	Össur eignast sterkt vörumerki sem á sér sögu frá árinu 1890 í Frakklandi
"	Veitir Össuri aðgang að sterku sölukerfi í Frakklandi
"	Aðgangur að nýjum og öflugum markaði fyrir vörur til notkunar við blóðrásarmeðferðir

Gibaud samstæðan
Gibaud var stofnað árið 1890 og hjá fyrirtækinu starfar 361 starfsmaður. Fyrirtækið rekur tvær starfsstöðvar, aðra í Saint Etienne og hina í Trevoux fyrir norðan Lyon en þar eru framleiddar vörur til notkunar við blóðrásarmeðferðir. Gibaud framleiðir og selur ýmsar stuðningsvörur  til notkunar á einkastofum, sjúkrahúsum og fyrir almenning. Fyrirtækið framleiðir einnig sérhannaðar vörur fyrir þrýstimeðferðir, við gigt, áverka og bráðameðferðir. Gibaud er eitt þekktasta vörumerkið í stuðningstækjaiðnaðinum í Frakklandi, bæði meðal fagfólks sem og almennings. Meirihluti sölu fyrirtækisins er til lyfjaverslanna og inn á verkstæði. Hjá Gibaud samstæðunni starfa rúmlega 65 manns við beina sölu, en fyrirtækið selur vörur sínar til rúmlega tíu þúsund lyfjaverslana í Frakklandi.

Philippe Laratte er framkvæmdastjóri Gibaud samstæðunnar frá og með deginum í dag en hann var áður rekstrarstjóri samstæðunnar. Hann fagnar þessum tímamótum í sögu fyrirtækisins: "Við fögnum tækifærinu til að vinna með Össuri og stækka starfsemi okkar í Frakklandi og um alla Evrópu. Þetta er einnig gott tækifæri til að koma vörum Össurar inn í dreifi- og sölukerfi okkar."

Sala Gibaud fyrir 12 mánaða tímabil sem endar 30. júní 2006 er 41,7 milljónir evra og EBITDA 21%. Áætlað er að gjaldfæra um 5 milljónir evra vegna endurskipulagningar í desember á þessu ári. Þar að auki  er gert ráð fyrir að gjaldfæra 2 milljónir evra vegna birgða sem eru færðar upp í söluverð árið 2007. Gert er ráð fyrir að sala Gibaud á árinu 2007 verði um 44 milljón evra og EBITDA, án óvenjulegra liða, um 18%. Gibaud verður tekið inn í samstæðureikning Össurar þó svo að það verði rekið sem sjálfstæð eining í fyrstu og ekki samþætt samstæðunni á sama hátt og önnur fyrirtæki sem hafa verið keypt fram að þessu. Gibaud mun starfa sem sjálfstætt fyrirtæki, að minnsta kosti fyrstu 18 til 24 mánuðina og því er ekki reiknað með samlegðaráhrifum þann tíma. 

Seljandi Gibaud er samsteypa fjárfestingasjóða sem er stýrt af Barclays Privat Equity. Sjóðirnir keyptu Gibaud árið 2001.


Fjármögnun
Banc of America veitti Össuri hf. ráðgjöf við kaupin. Kaupþing banki veitti ráðgjöf við fjármögnun kaupanna og brúarlán að upphæð 100 milljónir evra. Til uppgreiðslu brúarlánsins er gert ráð fyrir hlutafjárútboði á fyrri helmingi ársins 2007.

Afkoma 2006
Áfram er gert ráð fyrir að sala ársins 2006 verði yfir 250 milljónir  Bandaríkjadala. Reiknað er með að hagnaður Össurar fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) fyrir árið í heild verði um 19% (án kostnaðar vegna endurskipulagningar) Þetta er rétt undir því  sem tilkynnt var við birtingu á afkomutölum eftir þriðja ársfjórðung 2006, sem var 20%.

Kynningarfundir fyrir markaðsaðila
Föstudaginn 22. desember klukkan 13:00 heldur Össur hf. upplýsingafund til að kynna fyrirtækjakaupin fyrir fjárfestum og markaðsaðilum. Jón Sigurðsson forstjóri Össurar og Hjörleifur Pálsson fjármálastjóri munu kynna kaupin.

Vinsamlegast hringið í eftirfarandi símanúmer til að taka þátt í fundinum:

Símanúmer fyrir Evrópu: +44 (0) 20 7162 0125
Símanúmer fyrir Bandaríkin: +1 334 323 6203

Hægt er að hlusta á kynningafundinn á heimasíðu Össurar: www.ossur.com 
Einnig er unnt að senda fyrirspurnir til fundarins, sem haldinn er á ensku, með tölvupósti á investormeeting@ossur.com  


Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á heimasíðu Össurar: www.ossur.com og á vef Kauphallar Íslands, www.icex.is  jafnhliða fréttatilkynningunni.
Fréttatilkynningar frá Össuri sendar með tölvupósti

Ef óskað er eftir því að fá fréttatilkynningar frá Össuri sendar með tölvupósti, er hægt að skrá sig á eftirfarandi síðu: http://www.ossur.com/investormailings
Nánari upplýsingar

Jón Sigurðsson, forstjóri  sími: 515-1300