Met í stórum vefverslunum hjá Advania

Report this content

Aldrei hafa fleiri stórar og flóknar vefverslanir verið í smíðum hjá veflausnateymi Advania á Íslandi.

Sprenging í netverslun hefur gert það að verkum að rótgróin fyrirtæki hafa endurskoðað viðskiptahætti sína til að geta boðið vörur og þjónustu á netinu. Veflausnateymi Advania á Íslandi hefur mikla reynslu af því að leiða fyrirtæki í gegnum ferlið. Teymið hefur aldrei haft jafn stórar og umfangsmiklar vefverslanir í smíðum. Advania greinir þarfir fyrirtækja og smíðar vefverslanir sem henta starfsemi þeirra. Sérhæfing veflausnateymisins eru vefverslanir sem tengjast bakendakerfi svo sem bókhalds- og birgðakerfi, og eru samþættar rekstri fyrirtækjanna.

Til að færa viðskiptin á netið er ekki nóg að smíða vefverslun. Fyrirtækjum mun mistakast ef þau halda að netviðskipti snúist bara um að opna sætan vef. Það er að sjálfsögðu hluti af vegferðinni en svo þarf að hlúa að vefversluninni og ferlunum sem fylgja. Notendaupplifun á vefnum skiptir miklu máli til þess að geta lokað viðskiptum. Myndirnar af vöruúrvalinu verða að vera góðar og viðmótið þægilegt. Verslunin þarf að gefa greinargóðar upplýsingar um hverja vöru og það þarf að vera skýrt hvernig hægt er að skila henni. Svo þarf að kynna vefverslunina og uppfæra reglulega. Við verðum vör við að fólk vanmetur kraftana og vinnustundirnar sem fara í að viðhalda öflugri vefverslun,“ segir Sigrún Eva Ármannsdóttir, forstöðumaður veflausna Advania.

Hún bendir á að það reynist stórum fyrirtækjum stundum flókið að koma upp vefverslun, ef hún á að vera sniðin að núverandi ferlum. „Fyrirtækin gætu þurft að breyta ferlum sínum til að selja vöru á netinu með skilvirkum hætti. Rýna þarf í hvernig hægt er að afhenda vörur fljótt og haga skilmálum. Hvort vefverslun eigi að hafa sinn eigin lager eða nýta sama lager og hin hefðbundna verslun. Hvort selja eigi sömu vörur á netinu og í versluninni. Horfa þarf í margar breytur hjá fyrirtækjum í fjölþættum rekstri og við tökum þátt í öllu greiningarferlinu. Það er ekkert eitt rétt svar við þessum spurningum. Við erum auðvitað sjálf með stóra vefverslun sem hefur verið áskorun að koma á laggirnar. Það hefur hjálpað okkur að skilja betur þarfir viðskiptavina okkar,“ segir Sigrún Eva. 

Verslun á netinu hefur margfaldast á öllum Norðurlöndum undanfarin ár. Á Íslandi gefa kannanir Gallup til kynna að um 70% þjóðarinnar hafi verslað á netinu undanfarna 12 mánuði. Póstsendingar til landsins hafa aukist um 60% á einu ári sem skýrist af aukinni netverslun. Viðskipti á netinu hafa fest sig í sessi sem mikilvægur verslunarmáti og leið til að afla upplýsinga um vöruframboð.

Fyrir nokkrum árum var sagt að ef fyrirtæki væri ekki sýnilegt á netinu, þá væri það ekki til í hugum fólks. Nú er talað um að ef varan þín er ekki sýnileg á netinu, þá heldur fólk að hún sé ekki til hjá þér og kaupir hana annarstaðar,“ segir Sigrún Eva.

Nánari upplýsingar veitir:
Ægir Már Þórisson
forstjóri Advania á Íslandi
s: +354 864 98 41
netfang: aegir.thorisson@advania.is


Um Advania
Advania er norrænt félag í uppplýsingatækni með 22 starfsstöðvar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Íslandi. Fyrirtækið aðstoðar viðskiptavini sína við að bæta árangur þeirra með framúrskarandi tæknilausnum. Advania þjónustar þúsundir viðskiptavina, alþjóðlegar samsteypur, ríkisstjórnir og opinberar stofnanir, stór og smá fyrirtæki á öllum sviðum samfélagsins. Advania á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1939 þegar íslenskur frumkvöðull stofnaði viðgerðarþjónustu fyrir skrifstofubúnað í Reykjavík. Næstu áratugina urðu til þrjú tæknifyrirtæki í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem voru sameinuð undir hatti Advania árið 2012. Nánari upplýsingar má finna á advania.com

Subscribe

Media

Media

Documents & Links