Frétt um afkomu Össurar fyrstu sex mánuði ársins 1999

Report this content

                        
Rekstrartekjur hátæknifyrirtækisins Össurar hf. fyrstu sex mánuði ársins voru 728,4 milljónir króna en voru 1.033,5 milljónir allt árið í fyrra. Vert er þó að hafa í huga að undangengnum árum hafa u.þ.b. 60% af tekjum félagsins myndast á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður fyrir skatta nam 118,0 milljónum króna og var arðsemi eiginfjár 83,8% og arðsemi heildarfjármuna 29,3%.<br>
 <br>
Afskriftir á tímabilinu námu 13,3 milljónum, en fastafjármunir félagsins í lok júní voru 143,1 milljónir. Össur hf., gjaldfærir allan markaðskostnað og öll gjöld vegna rannsóknar og þróunarstarfs. Á fyrstu sex mánuðum ársins varði félagið 46,3 milljónum króna í rannsóknar- og þróunarstarf en allt árið í fyrra nam þessi fjárfesting 49,2 milljónum króna en vonast er til að félagið geti haldið áfram að styrkja markaðsstöðu sína á næstu árum með enn meiri útgjöldum til arðbærra rannsókna og þróunarverkefna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 121,8 milljónum króna en fjármagnsgjöld voru 3,8 milljónir króna. Langtímaskuldir Össurar hf. í lok tímabilsins voru 174,8 milljónir króna.<br>
<br>
Reiknaðir skattar námu 39,8 milljónum króna en í fyrra námu skattar félagsins 40,5 milljónum. Hagnaður af reglulegri starfsemi eftir skatta fyrstu sex mánuði ársins var 78,3 milljónir króna en var 88,3 milljónir allt árið í fyrra.  Hlutdeild Össurar í afkomu dótturfélags var neikvæð um 1,1 milljón króna og hagnaður tímabilsins var 77,2 milljónir króna en var 79,1 milljónir allt árið í fyrra. Hagnaður var 10,6% af veltu á tímabilinu en 7,7% í fyrra. <br>
<br>
Veltufé frá rekstri var 97,3 milljónir króna og handbært fé frá rekstri 98,5 milljónir. Niðurstöðutala efnahagsreiknings var 662,5 milljónir króna.<br>
<br>
Hraður vöxtur og aukin framlegð<br>
<br>
Rekstur Össurar hf. fyrstu sex mánuði ársins gekk að óskum, vöxtur rekstrartekna var ör og framlegðin jókst. Á árinu var ný vara, ICEFLEX hnéhlíf er úr sílikonhúðuðu kevlarefni, sett á markað en hönnun hennar hófst fyrir ári síðan. Fyrstu viðtökur hafa verið mjög góðar en enn er of snemmt að segja til um hvernig vörunni muni vegna.<br>
<br>
Enn sem fyrr er Norður-Ameríka stærsti markaðurinn með 47% af útflutningi félagsins en annar stærsti markaðurinn er Þýskaland með 15% af heildarútflutningi.  Undanfarið hefur verið lögð áhersla á að þróa og markaðsfæra nýjar vörur og á fyrri hluta ársins voru settar 5 vörur í veigaminni vöruflokkum á markað sem hafa tekið vel við sér en vega eðlilega ekki þungt í heildarsölunni.<br>
ICEROSS salan jókst um 27% á fyrstu 6 mánuðunum eða um tæplega 10% umfram áætlun.  Einnig gekk sala ICEX , koltrefjahulsunnar vel sem sýnir stöðugan vöxt og hefur vaxið um 31% frá síðasta ári.   <br>
 <br>
Í raun má segja að allir vöruflokkar fyrirtækisins hafi verið samkvæmt áætlun nema ný og endurbætt útgáfa af fjölliða ökklanum MASTERSTEP en sala hans gekk hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir.<br>
 <br>
<br>
Mörg ónýtt tækifæri<br>
<br>
Össur hf. stefnir að skráningu á Verðbréfaþing Íslands í haust og mun almennt hlutafjárútboð fara fram samhliða skráningu. Að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar hf., er markmið hlutafjárútboðs tvíþætt: "Annars vegar höfum um nokkurt skeið haft augastað á því að verða almenningshlutafélag og við teljum að nú hafi fyrirtækið náð þeim þroska að getað axlað þá ábyrgð sem því fylgir og því höfum við samið við Kaupþing hf. um að annast útboð og skráningu. Hins vegar sjáum við mörg ónýtt tækifæri bæði á þeim mörkuðum sem við nú störfum og svo ýmsum grenndarmörkuðum.  Við teljum það fýsilegan kost að sækja okkur fjármagn til hlutabréfamarkaðar til að nýta enn frekar þá þekkingu sem við höfum byggt upp hér innan fyrirtækisins og það orðspor sem Össur hf. hefur áunnið sér á heilbrigðisvörumarkaði." <br>
<br>
Fyrsta fyrirtækið í sinni grein á hlutabréfamarkað<br>
<br>
Jón sagði að hann geti vel unað við árangurinn þótt alltaf megi gera betur: "Markaðurinn sem við störfum á er að mörgu leyti mjög frumstæður og lítil samþjöppun hefur átt sér stað en við sjáum fram á að fyrirtækjum á honum muni fækka og þau stækka á næstu árum, enda er stærðarhagkvæmni veruleg á heilbrigðisvörumarkaði þar sem reglugerðir og gæðakröfur verða æ meiri. Össur hf. ætlar sér að verða leiðandi í þeirri þróun, og því leggjum við allt kapp á arðbæran vöxt. Okkur hefur tekist að auka arðsemina jafnhliða vextinum. Hagnaður er sú stika sem mælir hversu vel okkur tekst upp í rekstrinum hverju sinni en vöxturinn er mælikvarði á hversu vel við stöndum okkur í samkeppninni. Össur er fyrsta fyrirtækið í heiminum í sinni grein sem verður skráð á skipulegan hlutabréfamarkað, það veitir okkur aðgang að fjármagni sem keppinautar okkar hafa ekki." <br>
<br>
Samhentur stjórnendahópur<br>
<br>
Aðspurður um hverju hann þakkaði þennan árangur sagði Jón "Árangurinn nú er fyrst fremst að þakka markvissu  og samstilltu átaki starfsfólks. Núverandi stjórnendahópur Össurar hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 1996, sá tími hefur verið afar lærdómsríkur og það er því ánægjulegt að sjá árangur erfiðisins. Össur hf. er fyrst og fremst þekkingarfyrirtæki og í anda þess verður öllu starfsfólki boðið að kaupa hlutafé og fyrirtækið lánar vaxtalaust fyrir kaupunum. En fyrir okkur er skráning á Verðbréfþing ekki endapunktur heldur einungis nýr kafli í sögu þess. Árangurinn fram að þessu hefur náðst með því að bjóða afbragðsvöru og þekkingu á markaðssetningu hennar. Í fyrirtækinu býr nú mikil þekking á eiginleikum þeirra efna sem við vinnum með og við smíðum sjálfir allar mikilvægustu vélarnar í framleiðslu okkar. Við erum að auka útgjöld til rannsóknar- og þróunarstarfs um 80% en þau eru lykillinn að áframhaldandi velgengni fyrirtækisins.  Síðast en ekki síst erum við að stórauka útgjöld til markaðssetningar og höfum gert ýmsar breytingar á markaðskerfi okkar til að auka samvirkni þess.  Til dæmis lokuðum við skrifstofu okkar í Lúxemborg, en höfum samið við þýska fyrirtækið Medi um dreifingu á vöru okkar um mest allt meginland Evrópu."

Subscribe