Frétt um afkomu Össurar hf. 1998.

Report this content

                        
Heildartekjur íslenska hátæknifyrirtækisins Össurar hf. námu um 1.034 milljónum króna á árinu 1998 en voru til samanburðar 783 milljónir árið 1997 og 652 mkr. 1996. Hagnaður eftir skatta var 79 milljónir króna 1998 en var til samanburðar tæpar 12 milljónir árið á undan og 6 milljónir árið 1996.  Hagnaður félagsins af heildartekjum óx þannig úr 1,53% 1997 í 7,64% árið 1998.  Eigið fé Össurar hf. var 183 milljónir 31. desember 1998 og eiginfjárhlutfall 35,7%.  Arðsemi heildarfjármagns eftir skatta  er 22% og arðsemi eigin fjár var 77%.<br>
<br>
Nýjar vörur burðarás söluaukningar.<br>
Helsta ástæða mikillar veltuaukningar á árinu 1998 eru nýjar vörur sem komu á markað í upphafi árs 1998.  Þar er m.a. um að ræða Iceross Comfort, Iceross Pads, nýjar útgáfur af Masterstep og IceCast.<br>
<br>
Sala Össurar hf. á árinu skiptist í megindrátum þannig eftir markaðssvæðum að sala til Bandaríkjanna nam um 45% af heildarsölu fyrirtækisins og sala til EES landa var um 40%.  Þess má geta að sala til stríðshrjáðra svæða í heiminum var 1% af sölu fyrirtækisins.<br>
<br>
Öll starfsemi Össurar hf. á Íslandi var sameinuð árið 1998 í nýju framtíðarsetri á Grjóthálsi 5 í Reykjavík.  Jafnframt var framleiðsludeildin í Bandaríkjunum flutt heim til Íslands.  Ljóst er að umtalsvert hagræði hlýst af því þegar öll framleiðslu-, markaðs- og útflutningsstarfsemi fyrirtækisins er komin í nábýli með þessum hætti.<br>
<br>
Flutningur sölu- og markaðsskrifstofu Össurar USA frá Kaliforníu til Balimore á haustmánuðum speglar aukinn slagkraft í markaðsstarfi.  Meginmarkmiðið var að komast í betri nálægð við viðskiptavini, en að auki sparast m.a. dreifingarkostnaður í Bandaríkjunum og Kanada.  Enn frekari breytingar verða með vorinu þegar Össur Lux, söluskrifstofa Össurar hf. í Lúxemborg flyst til Íslands.  Um er að ræða hagræðingu í rekstri þar sem tvær söludeildir renna saman í eina í kjölfar breytinga á umboðsmannakerfi.<br>
<br>
Starfsfólki Ösurar hf. hefur fjölgað stórum undanfarin ár.  Þannig störfuðu 67 manns hjá fyrirtækinu 1996, en um áramótin '98-'99 voru starfsmenn orðnir 110 talsins.<br>
<br>
Framtíðaráform.<br>
Að undanförnu hefur verið unnið að nýrri stefnumótun Össurar hf.  Tilgangurinn er að efla samkeppnishæfni fyrirtækisins og undirbúa komu þess á hlutafjármarkað hér á landi og/eða erlendis.  Forstjóri Össurar hf. Jón Sigurðsson, væntir þess að félagið verði talið álitlegur fjárfestingarkostur þar sem fjárfesting í ört vaxandi fyrirtæki með mikla vaxtamöguleika sé spennandi valkostur fyrir fjárfesta hér á landi sem ytra.

Subscribe