Össur hf. kaupir Flex-Foot Inc.

Report this content

                        
Össur hf. hefur undirritað samning um kaup á öllum hlutabréfum bandaríska stoðtækjafyrirtækisins Flex-Foot, Inc. Kaupin eru háð skilyrðum um að samningurinn  standist lög og reglugerðir í Bandaríkjunum.<br>
<br>
Flex-Foot sem er í Orange County í Kaliforníu, hefur verið leiðandi í hönnun og markaðssetningu á gerviökklum og hnjáliðum. Fyrirtækið var stofnað af Van L. Phillips árið 1982.  Flex-Foot hefur eins og Össur hf. lagt áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf og hefur yfir að ráða 29 einkaleyfum í meira en 20 löndum, en flest leyfanna tengjast gerð gerviökkla úr koltrefjum. Flex-Foot á í þróunarsamstarfi við MIT (Massachusetts Institute of Technology) um hönnun gervihnjáliða, sem styðjast við gervigreind, og er þess að vænta að sú samvinna skili sér í markaðssetningu nýrrar vöru seinna á þessu ári.<br>
<br>
Með kaupum Össurar hf. á Flex Foot  er verið að steypa saman þeim fyrirtækjum á stoðtækjamarkaðinum sem vaxið hafa hvað hraðast og verið fremst í flokki með nýjungar á undanförnum árum.  Óhætt er að segja að helstu vörumerki þessara tveggja fyrirtækja, FLEX-FOOT og ICEROSS, séu með þeim sterkustu á stoðtækjamarkaðinum.  Sameinað fyrirtæki verður  næst stærsti framleiðandi stoðtækjalausna á heimsmarkaði.<br>
<br>
Að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar hf., eru mikil samlegðaráhrif möguleg með kaupum á Flex-Foot: "Flex-Foot hefur á að skipa öflugu sölukerfi í Bandaríkjunum og er að koma á fót sölukerfi í Evrópu. Enn sem komið er hefur Össur hf. selt í gegnum dreifiaðila á flestum markaðssvæðum en eitt af yfirlýstum markmiðum félagsins er að vinna að uppbyggingu eigin sölukerfis.  Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því styrkur vörulínanna liggur á mismunandi sviðum. Helsti styrkur Össurar hefur verið í hulsum sem festa gervifætur við útlimi, en styrkur Flex-Foot er í hnjáliðum og gerviökklum. Kaupin færa okkur nær því markmiði okkar að geta boðið heildarlausn." Jón sagði ennfremur að kaupin væru liður í þeirri stefnu Össurar hf. að vera fremstir í nýsköpun, framleiðslu og markaðssetningu á stoðtækjum, en til að ná því markmiði sínu mun fyrirtækið ýmist fjárfesta í eigin rekstri eða öðrum fyrirtækjum sem falla að stefnumiðum Össurar hf.<br>
 <br>
Maynard C. Carkhuff, framkvæmdarstjóri Flex-Foot Inc., segir starfsmenn Flex-Foot hlakka til að vinna með nýjum eigendum. "Við höfum fylgst með Össuri hf. um allnokkurt skeið og orðið þess áskynja að framtíðarsýn og stefna fyrirtækjanna eru áþekkar".<br>
<br>
Velta Flex-Foot á síðasta ári var 28 milljónir dollara (2 milljarðar króna) og hagnaður félagsins var 3,1 milljónir dollara (230 milljónir króna) en hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 5,7 milljónir dollara (416 milljónir króna). Fyrirtækið hefur verið í mjög örum vexti og jókst veltan um 28,5% á milli áranna 1998 og 1999.   Frá 1984 hafa tekjur félagsins aukist um 30% á ári og hagnaður fyrir skatta aukist um 28% á ári.  Kaupverðið er 72 milljónir dollara (5.256 milljónir),fyrir eignir og skuldir félagsins og þriggja milljóna dollara (220 milljóna króna) árangurstengda greiðslu (e. Earnout). Kaupin verða fjármögnuð með lausafjármunum Össurar hf., langtímaláni og hlutafjárútboði.<br>
<br>
Á síðastliðnu ári var samanlögð velta félaganna 3,3 milljarðar króna, hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) rúmar 650 milljónir króna og hagnaður eftir skatta nam 365 milljónum króna.<br>
<br>
Atlantica Associates Incorporated, veitti Össuri hf. fjármálaráðgjöf við kaupin en Kaupþing fjárfestingabanki annast fjármögnunina og síðar hlutafjárútboð. Að sögn Jóns Sigurðssonar hefur þetta kaupferli gengið mjög hratt fyrir sig en aðkoma erlendra jafnt sem innlendra sérfræðinga að málinu hefur tryggt að það hefur fram að þessu gengið fumlaust og örugglega fyrir sig.<br>
   <br>
<br>
Á morgun, þriðjudaginn 7. mars kl. 10:30, gefst fjárfestum og öðrum kostur á að taka þátt í opnum símafundi með Jóni Sigurðssyni, forstjóra, og Árna Alvari Arasyni, fjármálastjóra, og  fara yfir forsendur og aðdraganda kaupanna á Flex-Foot og framtíðarstefnu fyrirtækisins.<br>
Til að taka þátt í símafundinum þarf að hringja í eitt af eftirfarandi númerum 171-515-1234, 171-515-1235, 171-515-1236, 171-515-1237 og 171-515-1238.  Einnig er  unnt að fylgjast með fundinum á slóðunum www.ossur.is eða www.simnet.is/live.va, en ekki er hægt að koma með fyrirspurnir á vefnum.<br>

Subscribe