Össur hf. undirritar samning um kaup á bandaríska fyrirtækinu Century XXII Innov

Report this content

                        
Össur hf. hefur undirritað samning um kaup á öllum hlutabréfum í bandaríska stoðtækjafyrirtækinu  Century XXII Innovations, Inc. Kaupin eru háð skilyrðum um að samningurinn standist lög og reglugerðir í Bandaríkjunum og samþykki hluthafafundar hjá Össuri hf. sem haldinn verður 4. desember næstkomandi.<br>
<p><br>
Össur hf. greiðir fyrir öll hlutabréf Century XXII með 41,785,000 hlutum í Össuri hf. Össur hf. mun einnig greiða seljendum Century XXII  eina milljón bandaríkjadollara á þriggja ára tímabili með svokölluðu “earn out” fyrirkomulagi, ef viss markmið í rekstri fyrirtækisins nást. Kaupverð Century XXII er rúmlega 2,8 milljarðar króna  ef miðað er  við meðalgengi bréfa Össurar hf. síðustu 30 dagana fyrir dagsetningu kaupsamnings. Ef tekið er tillit til kostnaðar, tengdum kaupunum, má ætla að heildarkaupverð verði tæpir 3 milljarðar króna.<br>
<p><br>
Century XXII Innovations, Inc.,  sem er í Jackson, Michigan, er í forystu um hönnun og markaðssetningu  á gervihnjám í heiminum. Fyrirtækið hefur yfir að ráða 7 einkaleyfum á framleiðsluvörum fyrirtækisins sem eru markaðssettar í yfir 40 löndum undir vörumerkinu “Total Knee”. Century XXII Innovations, Inc. var stofnað árið 1993 og byggist framleiðsla fyrirtækisins á hönnun sænska verkfræðingsins Finn Gramnäs. Stjórnendur Century XXII Innovations, Inc. eru William Donahue og John Stonecipher og hafa þeir byggt fyrirtækið upp í samvinnu við Finn Gramnäs. <br>
<p><br>
Vörulína Century XXII Innovations, Inc. í gervihnjám mun bætast við sterka vörulínu Össurar hf.  í hulsum og gerviökklalínu Flex-Foot. Kaup Össurar hf. á Century XXII Innovations, Inc.   treysta enn frekar forystu Össurar hf. á sviði hönnunar og markaðssetningar stoðtækja. Jafnframt mun samanlögð vörulína gera Össuri hf. enn betur kleift að bjóða notendum og fagfólki heilstæða lausn.<br>
<p><br>
Áætluð velta Century XXII fyrir árið 2000 er 10,7 milljónir dollara eða  945 milljónir króna, hagnaður er áætlaður 176 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir (EBIDTA) er áætlaður 275 milljónir króna. Þessar tölur taka ekki tillit til hugsanlegra samlegðaráhrifa en þeirra verður fyrst vart á næsta ári. Á síðustu 3 árum hefur velta Century XXII aukist að jafnaði um  rúmlega 20% á ári. <br>
<p><br>
”Sjáum mikla möguleika”<br>
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf, segir kaupin á Century XXII falla vel að framtíðarsýn Össurar hf. “ Við sjáum mikla möguleika í samlegðaráhrifum þessara tveggja fyrirtækja, sem hafa hvort um sig verið í fararbroddi um tækniþróun á sínu sviði undanfarin ár. Við erum sérlega ánægð með að sameinaður viðskiptavinahópur þessara tveggja fyrirtækja, bæði stoðtækjafræðingar og notendurnir sjálfir, mun hafa mikið gagn af þessari sameiningu. Kaupin á Century XXII gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar bestu fánlegu vörur frá einum og sama aðilanum”.  <br>
Einnig segir Jón að kaupin séu virðisaukandi fyrir hluthafa Össurar hf.  þar sem fyrirtækið er keypt á góðu verði og eykur strax á næsta ári bæði sjóðstreymi og hagnað á hvern hlut. “Sameiningin gerir okkur kleift að halda áfram uppbyggingu Össurar hf. , breikkar vörulínuna og felur í sér mörg ný vaxtatækifæri." <br>
<p><br>
Össur hf. keypti í apríl á þessu ári bandaríska fyrirtækið Flex-Foot og í október  keypti fyrirtækið jafnframt tvö sænsk fyrirtæki, Pi Medical og Karlsson & Bergström A/B.  Kaupin á þessum fyrirtækjum, auk kaupanna á Century XXII Innovations, Inc., eru afrakstur yfirlýstrar stefnu fyrirtækisins um stækkun,  bæði á  vörulínu fyrirtækisins og sölukerfi. <br>
<p><br>
Óendurskoðað uppgjör Össurar hf. var birt 23. október síðastliðinn og gerir endurskoðuð áætlun ráð fyrir 762 milljóna króna hagnaði fyrir afskriftir (EBIDTA) fyrir árið 2000 og að heildarvelta samstæðunnar verði 3.490 milljónir króna. Þessar tölur taka ekki mið af samstæðuáhrifum vegna kaupanna en þeirra mun einungis gæta í einn mánuð á árinu.  Afskriftir óefnislegra eigna, að kostnaði meðtöldum, eru áætlaðar tæpir 3 milljarðar króna. Farið verður með þær á sama hátt og áður og verður afskrifað að fullu á þessu ári.<br>
<p><br>
Össur hf. er leiðandi í hönnun, framleiðslu og markaðssetningu stoðtækja í heiminum í dag. Vörulínur fyrirtækisins er meðal annars: Iceross, Dermo, Flex-Foot, Mauch og Total Knee frá Century XXII. Össur hf. er með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík auk þess sem fyrirtækið rekur skrifstofur í Aliso Viejo, Kaliforníu; Dayton, Ohio;  Eindhoven, Hollandi;  Manchester,  Bretlandi; Uppsala og Helsingborg, Svíþjóð; og Jackson, Michigan. <br>
<p><br>
Haldinn verður hluthafafundur  hjá Össuri hf.,  mánudaginn  4. desember 2000, kl. 11,  á Grand Hótel. 

Subscribe