Skipulagsbreytingar hjá Össuri hf.

Report this content
Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur  í rekstri Össurar hf. eftir samrunaferlið við Flex-Foot og Century XXII Innovations hefur verið tekin ákvörðun um skipulagsbreytingar. Þessar breytingar miða að því að stytta boðleiðir og gera ákvarðanatöku í fyrirtækinu skilvirkari. Jafnframt mun skipulag sölu- og markaðsstarfs verða aðlagað enn frekar að breytingum á sölukerfi félagsins í Bandaríkjunum og Evrópu. 
Maynard Carkhuff, framkvæmdastjóri stoðtækjasviðs, mun láta af störfum hjá fyrirtækinu. Í kjölfar þessarar breytingar hefur verið ákveðið að sölu- og markaðssvið, vörustjórnunarsvið og framleiðslusvið munu heyra beint undir forstjóra Össurar hf.  Fjármálastjóri Össur USA (áður Flex-Foot) mun eftir sem áður stjórna fjármálum og skrifstofurekstri fyrirtækisins í Kaliforníu sem eftir breytingarnar  heyra undir fjármálasvið á Íslandi.

Uppgjör starfssamnings sem gerður var við Maynard Carkhuff í tengslum við kaup Össurar hf. á Flex-Foot  er áætlað 93 milljónir króna og fellur sá kostnaður  til á næstu þremur og hálfu ári. Ákveðið hefur verið að gjaldfæra allan kostnaðinn á yfirstandandi ársfjórðungi,  og lækka því áætlanir félagsins á 3. ársfjórðungi um sömu upphæð. 

Subscribe