Eitt stærsta fjárfestingarfyrirtæki Norðurlanda kaupir hlut í Össuri hf.

Report this content
Sænska fjárfestingafyrirtækið Industrivärden hefur keypt 15% hlutafjár í Össuri hf. Seljendur eru Kaupþing banki hf., Mallard Holding S.A, sem er í eigu Össurar Kristinssonar, og Össur hf.
“Þetta er stór áfangi fyrir Össur hf.” segir Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins. “Við höfum markvisst unnið að því að koma félaginu í það horf að það höfði til breiðari hóps fjárfesta. Markmiðið er að tryggja aðgang að nægilegu fjármagni til að gera vaxtaráform okkar að veruleika.” 

Fjárfesting Industrivärden er stjórnendum Össurar hvatning og staðfesting á því að fyrirtækið hefur vakið athygli eins virtasta fjárfestingafyrirtækis á Norðurlöndum sem er tilbúið að auka virði félagsins með virkri eignaraðild. “Það er mikil vinna að kynna fyrirtækið fyrir fjárfestum ytra og við höfum unnið að því að fá fjarlægðar hindranir sem erlendir fjárfestar hafa bent okkur á að standi í vegi fyrir fjárfestingu þeirra á Íslandi. Reikningsskil félagsins eru þegar í Bandaríkjadölum og óskað verður eftir heimild hluthafa til að umbreyta hlutafé félagsins úr krónum í Bandaríkjadali á hluthafafundi 6. júní”.

Industrivärden er eitt stærsta fjárfestingafyrirtæki á Norðurlöndum, stofnað árið 1944. Hrein eign þess er um 3,3 milljarðar Bandaríkjadala og það er skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum í skráðum félögum á Norðurlöndum sem talin eru eiga góða möguleika á að þróast áfram. 

Nánari upplýsingar veitir

Jón Sigurðsson, forstjóri í síma 515-1316

Subscribe