9 mánaða uppgjör Össurar hf.

Report this content
Sala fyrstu níu mánuði ársins er 4.948 milljónir króna.
Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins er 559 mkr.

EBIDTA fyrstu níu mánuði ársins er 857 mkr.

Áætlaður hagnaður ársins er 810 mkr.

Reikningsskil verða í USD frá 1. janúar 2002.


Árshlutareikningur félagssamstæðu Össurar hf. 30. september var samþykktur á stjórnarfundi 26. október.  Árshlutareikningurinn er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og verið hefur á árinu 2001 og er áritaður fyrirvaralausri könnunaráritun af endurskoðendum félagsins.  

Samstæða Össurar hf. samanstendur af Össuri hf. á Íslandi, samstæðu Össur Holdings Inc. í USA, samstæðu Össur Invest AB í Svíþjóð, auk einstakra félaga á Íslandi, í Luxemborg, Hollandi og víðar.  Ekki hafa orðið verulegar breytingar á samsetningu samstæðunnar á árinu 2001.


Helstu niðurstöður eru

Rekstrarreikningur (mkr.)              1.ársfj.  2. ársfj.  3. ársfj.  Samtals    
                                                                                  
Rekstrartekjur                              1.421      1.712      1.815      4.948
Rekstrargjöld                               1.275      1.520      1.444      4.239
Rekstrarhagnaður                              146        192        371        709
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld              -31         17          1        -13
Hagnaður fyrir tekjuskatt                     115        209        372        696
Tekjuskattur                                  -59         44       -126       -141
Hagnaður fyrir aðrar tekjur og gjöld           56        253        246        555
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga           1          2          1          4
Hagnaður tímabilsins                           57        255        247        559
                                                                                  
EBIDTA                                        192        244        421        857
                                                                                  
Efnahagsreikningur (mkr.)              .         .          30. sept   31. des,   
                                                            2001       2000       
                                                                                  
Fastafjármunir                                                    3.094      2.614
Veltufjármunir                                                    2.742      2.201
Eignir samtals                                                    5.836      4.815
                                                                                  
Eigið fé                                                          2.823      2.061
Langtímaskuldir                                                   1.370      1.172
Skammtímaskuldir                                                  1.643      1.582
Eigið fé og skuldir samtals                                       5.836      4.815
                                                                                  
Sjóðstreymi (mkr.)                     1.ársfj.  2. ársfj.  3. ársfj.  Samtals    
                                                                                  
Handbært fé frá rekstri                       118        262        374        754
Fjárfestingahreyfingar                        -90       -132        -24       -246
Fjármögnunarhreyfingar                        -69       -218       -238       -525
Hækkun (lækkun) handbærs fjár                 -41        -88        112        -17
                                                                                  
Lykiltölur                                                             30.9.2001  
                                                                                  
Hagnaður af reglul. starfsemi á hlut                                       2,3 kr.
V/H hlutfall                                                                  18,3
Arðsemi eigin fjár                                                             30%
Veltufjárhlutfall                                                              1,7
Eigin fjárhlutfall                                                             48%
Markaðsvirði hlutafjár (milljarðar)                                          13,6.


Samanburður við árið 2000

Í níu mánaða uppgjöri félagsins nú eru ekki samanburðartölur á rekstrarniðurstöðum ársins 2000.  Ástæðan er sú að ekki var gert sambærilegt kannað heildaruppgjör fyrir það tímabil.  Rekstrarniðurstöður fyrstu níu mánuðina 2000, sem birtar voru í október 2000, voru :

Rekstrarreikningur 2000 (mkr.)            3. ársfj.  1.1-30.9  
                                                               
Rekstrartekjur                                  1.505     2.827
Rekstrargjöld                                   1.143     2.289
Rekstrarhagnaður                                  362       538
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld                 -153      -142
Hagnaður fyrir tekjuskatt                         210       396
Tekjuskattur                                      -87      -136
Hagnaður fyrir aðrar tekjur og gjöld              123       260
Óregluleg gjöld                                    15    -3.675
Hagnaður (tap) tímabilsins                        138    -3.415
                                                               
EBIDTA                                            401       610

Við samanburð milli áranna 2001 og 2000 þarf að hafa í huga að vegna kaupa á fyrirtækjum var samsetning samstæðunnar á rekstrartímabilinu ekki sambærileg.

Rekstur tímabilsins

Reksturinn á þriðja ársfjórðungi gekk í meginatriðum í samræmi við áætlanir.  Framlegð var nokkru hagstæðari að meðaltali en reiknað var með, sölukostnaður var lægri en stjórnunarkostnaður hærri.  Markmið um veltu, EBITDA og hagnað þriðja ársfjórðungs náðust í meginatriðum, þrátt fyrir sérstakar gjaldfærslur á skrifstofu- og stjórnunarkostnað.  Um er ræða gjaldfærslu að fjárhæð 80 milljónir króna vegna endurskipulagningar í Bandaríkjunum og Evrópu og sérstakra varúðarniðurfærslu krafna að fjárhæð 22 mkr. vegna breytinga á sölukerfi í Evrópu.

Áhrif hryðjuverkanna í New York þann 11. september á reksturinn voru þau að sala dróst saman í 4-5 daga og er samdráttur í sölu af þessum sökum metinn á 140-160 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi.  Salan hefur jafnað sig aftur og önnur áhrif rekstur fyrirtækisins hafa ekki verið merkjanleg.

Breytingum á sölukerfi er nú lokið og selur fyrirtækið nú milliliðalaust á öllum helstu markaðssvæðum sínum, þ.e. í Bandaríkjunum, á Norðurlöndum og í Evrópu.  Nokkur reynsla er komin á breytingarnar í Bandaríkjunum og þrátt fyrir áföll í byrjun hafa þær reynst jákvæðar fyrir fyrirtækið.  Of fljótt er hinsvegar að segja til um áhrif breytinganna í Evrópu vegna þess hversu skammt er síðan þær tóku gildi.

Þróun og markaðssetning á nýjum vörum hefur gengið vel það sem af er árinu.  Unnið hefur verið að endurskipulagningu á vörulínum með það að markmiði að fullnægja þörfum ákveðinna markhópa.  Í maí var sett á markað ný hulsa svokölluð Transfemoral hulsa, sérstaklega ætluð þeim sem eru aflimaðir fyrir ofan hné og er hún sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.  Sala ársins í stykkjatali er þegar orðin tvöföld að magni til miðað við það sem áætlað var að selja á öllu árinu.  Um svipað leyti var einnig sett á markað ný hulsa fyrir þá sem eru aflimaðir á handlegg, svonefnd Upper X liner.  Hún hefur fengið mjög góðar viðtökur.  Endurbættri útgáfu af Comfort hulsunni, sem er aðalsöluvara fyrirtækisins í sílikonvörum, hefur einnig verið vel tekið.  Sala á Comfort hulsunni er þegar orðin 25% meiri en allt árið í fyrra.  Vörulína í Dermo hulsum hefur verið breikkuð.

Þróun á gervifótum og gervihnjám hefur ekki verið eins jákvæð.  Þróun á nýju rafeindastýrðu hné, Rheo hnénu, hefur reynst metnaðarfyllra verkefni en áætlað var.  Unnið er að hönnun þess í samvinnu við MIT (Massachusetts Institute of Technology) og er nú áætlað að það komi á markað 2002.  Markaðssetning á TKO hnénu dróst vegna tafa við hönnun.  Nýr gervifótur, Talux, var settur á markað í sumar.  Fóturinn byggist á nýrri tækni og markar upphafið að endurnýjun í vörulínu gervifóta sem talin er nauðsynleg til að viðhalda því markaðslega forskoti sem fyrirtækið hefur á því sviði.


Horfur í rekstri út árið

Rekstraráætlun félagsins fyrir árið 2001, sem birt var í febrúar, gerði ráð fyrir veltu upp á 74 milljónir bandaríkjadollara eða um 6.100 milljónir íslenskra króna og að hagnaður yrði 8,5 milljónir dollara eða um 700 milljónir króna.  Miðað við meðalgengi USD fyrstu níu mánuði ársins samsvarar þetta nú 7.030 milljóna króna veltu og 810 milljóna króna hagnaði.  Náist markmið fjórða ársfjórðungs er áætluð ársvelta nú 6.650 milljónir eða um 70 milljónir USD.  Gert er ráð fyrir að upphafleg áætlun um hagnað ársins gangi eftir þannig að hagnaður verði 8,5 milljónir dollara eða um 810 milljónir króna.  EBIDTA framlegð er áætluð rétt um 20% eða 1.320 milljónir króna.

Ítrekað er að óvissa í rekstri félagsins út árið er e.t.v. meiri en almennt gerist.  Ástæðurnar eru miklar breytingar sem hafa verið gerðar á sölukerfi og skipulagi fyrirtækisins á árinu og að áætlað er að hlutfallslega stór hluti umsvifa falli til á síðasta ársfjórðungi.


Breyting á uppgjörsgjaldmiðli og hlutafé

Ákveðið hefur verið að frá 1. janúar 2002 verði upplýsingakerfi Össurar hf. og uppgjör í bandaríkjadollurum.  Jafnframt hefur verið ákveðið að athuga með að skipta út hlutabréfum félagsins fyrir hlutabréf í USD á næsta ári.  Þessar breytingar eru með fyrirvara um að þær verði mögulegar samkvæmt lögum. 

Ástæður framangreindrar ákvörðunar eru að þess er vænst að hins nýja tilhögun auðveldi félaginu að ná framtíðarmarkmiðum sínum um vöxt, þar sem breytingin ryður úr vegi hluta þeirra hindrana sem eru á að ná til fjárfesta utan Íslands.


Opinn símafundur með stjórnendum

Þriðjudaginn 30. október kl. 9:00 gefst fjárfestum og öðrum, sem áhuga hafa á rekstri félagsins, kostur á að taka þátt í opnum símafundi.  Á fundinum munu Jón Sigurðsson, forstjóri, og Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri, fara yfir niðurstöður þriðja ársfjórðungs. 

Til að taka þátt í fundinum þarf að hringa í síma 595 2030. Einnig er unnt að fylgjast með fundinum á www.ossur.is